Nýjar þýðingar

Hér birtast nokkrar nýjar þýðingar sem ekki er í bókinni.  Sem fyrr eru öll ljóðin eftir löngu dauð skáld, hið elsta, Til jómfrúa eftir Robert Herrick, frá 17. öld. Ekki beinlýnis nútímlegt hvað varðar viðhorf til samfélagsstöðu kvenna, en ábendingar höfundar um hverfulleika lífsins og ótuktaskap tímans eru enn í fullu gildi. Hér eru skáld stórtæk: Auden yrkir um hina mannlegu kondisjónu og Yeats leitar tilgang lífsins. Og finnur hann, eða því sem næst. Hann byrjar alla vega á f-i.

 

Robert Herrick

Til jómfrúa (safnið þér rósum)

To the Virgins (gather ye rosebuds)

Safnið þér rósum meðan má.
Mun yður tíminn hryggja.
Daglega dafna blómin smá
er dauð á morgun liggja.

Þegar sól á himni hátt
hlýjar yndi dagsins
hennar ferð í eina átt
er til sólarlagsins.

Bestu árin eru fyrst
með æskublóma fríðan.
Hefur svo lýðum löngum virst
lífið versna síðan.

Grípið færin sprundin fróm
og finnið yður maka.
Yðar kemur æskublóm
aldregi til baka.

 

William Butler Yeats

Verandi beðinn að yrkja um stríðið

On being asked for a War Poem

Ljóðagerð er varla það sem þarf,
þjóðráð hafa sárafá að kenna
skáldin þeim er þegið hafa völd.
Þykir mér og vera ærið starf
að laga ljóð að dyntum ungra kvenna
og létta gömlum skröggum ævikvöld.

 

William Butler Yeats

Iðrun eftir öfgaræðu

Remorse for Intemperment Speech

Ég hataðist sem venja er,
en heiti því að temja mér
hófstilltara mál.
Finn ég samt að enn ég ber
fanatíska sál.

Ég segist hafa betrun gert,
en svoleiðis er einskis vert
og sjálfsagt prett og tál.
Mér finnst sem ekkert geti snert
þá fanatísku sál.

Frá landi Íra komum við
með landþrengslin og mannhatrið
og lukka vor því strjál.
Ég fann er skreið í móðurkvið
fanatíska sál.

 

W. H. Auden

„Villugjörn á fjöllum okkar vals“

“Wandering lost upon the mountains of our choice“

Villugjörn á fjöllum okkar vals
vitum við í Suðri græna flöt,
en heimleiðin er hulin vafa alls,
við höfum val en þurfum eðlishvöt.

Í fjallakofa dreymir okkur dans
í dýrðarsölum framtíðar og þar
er sérhver hreyfing hluti æðra plans
sem hjartað getur fylgt til eilífðar.

Er aðrar skepnur vita fyrir víst
og eiga þessa vissu mesta auð sinn
við fáum allar efasemdir hýst.

Og okkar val er engin sanfæring
og frelsi vort er frelsi af illri nauðsyn.
Við fjallamenn sem göngum fjallahring.

 

William Butler Yeats

Pílagrímur

The Pilgrim

Í fjörutíu daga ég fastaði við þurt
því feitmeti og drykkja höfu rekið andann burt,
og lausung boldangskvenna og léttúð hispursmeyja.
Lítið gagn í konum því eina sem þær segja
er foll de roll de rollí ó.

Við stöðuvatnið Derg ég settist upp á stein
og stundaði slík andlegheit að skulfu í mér bein,
og fyrir spakan guðsmann ég spurningarnar lagði
og spurði hann í þaula, en eina sem hann sagði
var foll de roll de rollí ó.

Hreinsunar í eldi er heldur daufleg vist.
Þar hrúgast alls kyns dauðyfli frá gólfi upp í kvist.
Og það veit Guð ég spurði þau, sem önsuðu með tregðu,
og það kom ekki á óvart þótt eina sem þau segðu
væri foll de roll de rollí ó.

Mig elti einhver ránfugl á minni bakaleið,
og ókindin var tvisvar sinnum tíu feta breið.
Ég spurði aldrei ferjumann: „Og hvaða fogl hér geyir?“
Mér fannst hann þessi manngerð sem ekkert annað segir
en foll de roll de rollí ó.

Á krána er ég sestur og vínið kneifa skal.
Og komið þér nú meyjar og boldangskvennaval.
Og lærðar mannvitsbrekkur ég held að koma megi,
því mér er ekki svarafátt, og viskan sem ég segi
er foll de roll de rollí ó.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s