Þýðingar

Hér birtast nokkrar þeirra þýðinga sem er að finna í bókinni Í TÖTRASKÓGI. Þeim sem vilja lesa meira er bent á að kaupa bókina.

 

John Keats

Um dauðann

On Death

Er dauðinn svefn, sé lífið aðeins draumur
og dýrðir heims sem tálsýnir að eygja?
Hve skammært happ og hlutur manna aumur.
Samt höldum við að það sé sárt að deyja.

Hve undarlegt að menn um jörðu líði
og lifi til þess eins að þrá og sakna,
og skjálfandi í skelfingu þeir bíði
síns skapadóms sem felst í því að vakna.

 

William Butler Yeats

Hann óskar sér klæða himna

He Wishes for the Cloths of Heaven

Ætti ég himna útsaumuð klæði,
ofin gulli, hin silfur lýstu,
hin bláu, hin dimmu, hin dauflitu klæði
dags og nætur og hálf lýstu,
ég legði þau fús á veg þinna fóta,
en fátækur hefi ég aðeins drauma.
Ég legg mína drauma á leið þinna fóta.
Stíg létt því þú stígur á mína drauma.

 

William Butler Yeats

Mig dreymir dáið yndi

A Dream of Death

Mig dreymir dáið yndið mitt
í dölum ókunns lands.
Þar leggur hana í leiði sitt
líkfylgd almúgans.
Undir fjölum er mitt hnoss
ein með út lendingum,
er setja svo á leiðið kross
og sýprustré í kringum.
Í stjörnuskini skriftir sjást
er skar ég einn og hryggur:
Hún var fegurri en fyrsta ást
Er undir fjölum liggur.

 

William Butler Yeats

Bæn um góða elli

A Prayer for Old Age

Guð forði mér frá þönkum þeim
er þenkir viskan ein
og vottar aðeins andagift
en ekki merg og bein;

frá því er prýðir gamlan þul
hins þykkjuþunga hóps,
því hvað er ég án kerknissöngs
hins kærulausa glóps.

Og fær mér, Guð,  þann dánardag
er drekka vinir skál
og grafa mig sem gamlan mann,
en gráta unga sál.

 

A.E. Housman

„Best eru kirsuberjatré“

“Loveliest of trees, the cherry now“

Best eru kirsuberjatré.
Blóma þeirra nú ég sé
klæðast hvítu þegar blíð
kemur blessuð páskatíð.

Sex sinnum tíu og tuginn við
tel ég í árum jarðlífið.
Tuttugu hef ég sóað senn,
svo eru fimmtíu eftir enn.

Fimmtíu skal ég vorin fróm
fara að horfa á kirsublóm
út á grund og inn í skóg
er þau klæðast páskasnjó.

 

Robert Frost

Áð við skóg er snjóar að kveldi

Stopping by Woods on a Snowy Evening

Veit ég vel hver á þann skóg.
Hann veit ei mínar ferðir þó,
hvar ég ái, auga ber,
allt hans skógland þekjast snjó.

Ókyrrist klár og enga sér
ástæðu til að staldra hér.
En í kafalda kyrrð ég finn
þetta kvöld sem dimmast er.

Fús er til farar hestur minn,
frýsar og hristir makka sinn.
Dúnmjúk er drífa, hygg ég að
djúpur og yndæll sé skógurinn.

Þó má ég fara og hafa hrað.
Heit hef ég gefið og efni það.
Og margar mílur í næturstað,
og margar mílur í næturstað.

 

Austin Clarke

Dóttir landherrans

The Planter´s Daugher

Er nótt bar við sæ
og setin var kráin
þeir sögðu hennar fegurð
sönglag í munni
og fáir í húminu
vændu hana hofmóðs,
því túngarður landherrans
þekkist af trjánum.

Karlmenn er sáu hana
kneifuðu þöglir
og konurnar pískruðu
hvar sem hún fór.
Eins og klukka sem slær
eða undur hvíslað,
og ó hún var sunnudagur
sérhverrar viku.

 

W.H. Auden

Útfararblús

Funeral Blues

Stöðvið klukkur, takið síma í sundur,
sækið bein svo hætti gelti hundur,
lokið flygli, lágan trumbuslátt
látið fylgja kistu um kirkjugátt.

Látið flugvél hnita hringinn sinn,
Hann Er Dáinn skrifa í himinninn,
skreytið dúfur borgar sorgarböndum,
beri lögregla svarta hanska á höndum.

Hann var mér Norður, Suður, Austur, Vestur,
hann var mér hvunndagslíf og helgargestur,
dagur, miðnótt, orð mín öll og list;
og eilíf ást, ég hélt; mér skjátlaðist.

Nú þurfum við ekki stjörnur, hendið þeim;
afþakkið tungl og sendið sólu heim;
eyðið öllum skógi, tæmið haf.
Því ekkert gott mun gerast héðan af.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s